top of page

Saga KFA
frá 1972-2025

ezgif.com-50abf25b61.gif

Samantekt af sögu félagsins 

Saga Kraftlyftingafélags Akureyrar

 Kraftlyftingafélag Akureyrar (KFA) er íþróttafélag lyftingamanna á Akureyri, stofnað 7. janúar 1975 innan Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA). Félagið var stofnað af tæplega 60 einstaklingum og hefur frá upphafi verið leiðandi afl í uppbyggingu lyftingaíþrótta á Íslandi. 
 

Félagsaðild og fjölbreytni 

KFA hefur þróast í gegnum árin og er í dag aðili að fimm sérsamböndum innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ): 

  • Lyftingasamband Íslands (LSÍ): 1975–1985 og frá 2011 

  • Kraftlyftingasamband Íslands (KRAFT): Frá 1985 

  • Íþróttasamband fatlaðra (ÍF): Frá 2013 

  • Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ): Frá 2018 

  • Klifursamband Íslands (KLIF): Frá 2022 


Með þessari víðtæku aðild hefur félagið staðið fyrir fjölbreyttum og samþættum íþróttagreinum, sem endurspeglar metnað þess til að efla og fjölga iðkendum á öllum aldri og úr öllum áttum. 

 

Saga KFA hófst árið 1972 þegar Kjartan Sigurðsson, lögreglumaður, leitaði til Vilhjálms Inga Árnasonar, íþróttakennara, um að aðstoða son sinn, Grétar Kjartansson, 19 ára kappsamann sem vildi snúa við blaðinu.

 

Fyrsta æfingaaðstaðan var í kjallara lögreglustöðvarinnar og síðar í ófullgerðu verslunarhúsi Árna Árnasonar. Með leyfi Hermanns Sigtryggssonar íþrótta- og æskulýðsfulltrúa fengu þeir aðstöðu í kjallara stúku Íþróttavallarins með heimatilbúnum áhöldum og stálplöttum frá Slippstöðinni. 

Ástríða kveikir á áhuganum 

Hópurinn stækkaði fljótt, og ungir áhugamenn bættust í hópinn. Árið 1973 ákvað Vilhjálmur að fjármagna kaup á löggiltum keppnissettum úr eigin vasa, þar sem Akureyrarbær hafði ekki fjármagn. Sama ár kom Björgvin Sigurjónsson frá Vestmannaeyjum með áhöld sem björguðust úr gosinu, sem gaf hópnum byr undir báða vængi. 

Seint árið 1973 héldu þeir vel sótta lyftingasýningu í Skemmunni. Þrátt fyrir mistök, þar sem lóð fór í gegnum nýlagt parket, blómstraði áhuginn enn frekar. Grétar Kjartansson varð fyrsti Akureyringurinn til að verða Íslandsmeistari í lyftingum (þríþraut) árið 1974. Sama haust var haldið fyrsta Akureyrarmótið. 

 

Áfall og nýr kafli 

Á milli jóla og nýárs 1974 varð hópurinn fyrir miklu áfalli þegar Grétar lést af slysförum. Það var erfitt að missa slíkan drifkraft, en félagar eins og Freyr Aðalsteinsson, Guðmundur Svanlaugsson og Haraldur Ólafsson tóku við keflinu og héldu áfram að byggja upp félagið með eldmóði og krafti. 

 

Þáttaskil og uppgangur (1975–1984) 

Þann 7. janúar 1975 voru þáttaskil í sögu lyftinga á Akureyri þegar Lyftingaráð Akureyrar var stofnað innan ÍBA, sem sameinaði lyftinga- og kraftlyftingamenn undir einn fána. Þetta markaði nýjan kafla í íþróttinni. Sama ár flutti Kári Elísson, heimsklassa íþróttamaður í bæði kraft- og ólympískum lyftingum, til Akureyrar og kom með dýrmæta þekkingu sem efldi hópinn enn frekar. 

Aðstaðan í stúkunni varð þó fljótlega ófullnægjandi vegna vaxandi fjölda iðkenda. Æfingar voru fluttar í ýmis húsnæði þar til hópurinn fékk loks fasta aðstöðu í Lundaskóla árið 1978, sem kölluð var Trölladyngja. Þar æfðu lyftingamenn til 1984, á árum sem einkenndust af miklum uppgangi. 

Eftirminnilegir keppendur og þáttakendur í starfi félagsins á þessum árum (1972-1984) 

  • Hjörtur Gíslason (f. 1958), fyrsti Akureyringurinn til að keppa alþjóðlega í lyftingum. Hann keppti á Norðurlandameistaramóti unglinga sem haldið var Tönsberg í suður Noregi. Hans besti árangur var 125 kg í snörun og 155kg í jafnhendingu í -82.5kg fl. 

  • Haraldur Ólafsson (f. 1962) varð þrefaldur norðurlandameistari fyrstur íslendinga og var kjörinn íþróttamaður Akureyrar 1980 og 1981. Hann náði einnig stórkostlegum árangri árið 1984 þegar hann tryggði sér þátttökurétt á Ólympíuleikana með frammistöðu sinni á Evrópumótinu í Vitoria, Spáni. Þar tók hann 127,5 kg í snörun og 172,5 kg í jafnhendingu í -75 kg flokki, sem gaf hæsta Sinclair-stiga árangur lyftingamanns á Íslandi á alþjóðlegumeistaramóti (397,9), óviðjafnanlegan enn þann dag í dag. 

  • Garðar Gíslason (f. 1963), fyrsti Akureyringurinn til að keppa á heimsmeistaramóti fullorðina í lyftingum. Hans besti árangur er 150kg í snörun og 180kg í jafnhendingu í -100kg fl. 

  • Gylfi Gíslason (f.1963), hans besti árangur var 140,5kg í snörun og 180kg í jafhendingu í -90kg fl. 

  • Kári Elísson, silfur á HM í kraftlyftingum 1985 í -67.5kg fl. Hans bestu tölur voru 260kg í hnébeygju, 190kg í bekkpressu og 295kg í réttstöðulyftu. 

  • Vikingur Traustason, silfur á EM í kraftlyftingum 1981 í +125kg fl. Hans bestu tölur voru 340kg í hnébeygju, 230kg í bekkpressu og 345kg í réttstöðulyftu. 

  • Arthur Örn Bogason setti sitt fyrsta Evrópumet í réttstöðulyftu, 335 kg, á Akureyri 17. maí 1980. Sama ár sigraði hann Jón Pál á Íslandsmótinu með 340 kg réttstöðulyftu í einvígi sem varð ógleymanlegt. 

Árið 1985 fengu lyftingamenn á Akureyri sal í Íþróttahöllinni sem nefndur var Jötunheimar. Salurinn, sem átti að vera tímabundin lausn, var bæði minni og óhentugri en Trölladyngja. Á sama tíma blossaði upp ágreiningur innan Lyftingasambands Íslands (LSÍ), sem leiddi til klofnings og stofnunar nýs sérsambands fyrir kraftlyftingar utan ÍSÍ. Félagið tók upp nafnið Kraftlyftingafélag Akureyrar (KFA), þar sem fremstu lyftingamenn hópsins einbeittu sér að þríþraut (hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu).  Í kjölfarið varð KFA að segja sig úr Íþróttabandalagi Akureyrar. 

Endurreisnartilraunir og áskoranir 

Eftir að Haraldur Ólafsson sneri heim úr atvinnumennsku árið 1986 gerði hann hetjulega tilraun til að endurvekja starfskraft KFA frá árunum 1974–1984. Á þessum tíma voru kraftlyftinga- og lyftingamenn ekki lengur sameinaðir, og nýtt Lyftingafélag Akureyrar var stofnað. Þrátt fyrir að Jötunheimar héldu áfram sem aðalæfingaaðstaða, dró úr starfsemi í ólympískum lyftingum, og Lyftingafélag Akureyrar hætti rekstri um aldamótin. 

Blómlegt starf og áskoranir (1985–2005) 

Starf Kraftlyftingafélags Akureyrar hélt áfram af krafti á þessum árum, þrátt fyrir að þekking, reynsla og félagsandi dvínuðu með tímanum. Ungir menn tóku við keflinu og reyndu eftir bestu getu að endurvekja fyrri dýrð félagsins. Þrátt fyrir tilraunir til að bæta samskipti lyftingamanna, hafði klofningurinn sem hófst 1985 varanleg áhrif. 

Endurvakning ungu kynslóðarinnar (2005) 

Haustið 2005 hófst nýtt tímabil þegar hópur ungra manna byrjaði að æfa lyftingar. Áhuginn var mikill, og hópurinn stækkaði hratt. Flestir voru á aldrinum 16–19 ára og urðu fljótlega leiðtogar félagsins. Þrátt fyrir gamlan búnað var rík hefð fyrir að halda reglulega mót og kraftakeppnir. 

Á þessum tíma voru sundrungar að endurtaka sig innan Kraftlyftingasambands Íslands. Fá lyftingafélög voru starfandi utan Akureyrar, sem hafði haldið grassrótarstarfi gangandi, en annars staðar á landinu hafði starfsemi lamast. 

Nýtt upphaf og sameining (2008–2013) 

Á tímabilinu eftir 1985 höfðu íslenskir kraftlyftingamenn, sem voru stærsti hópur lyftingamanna á Íslandi, náð einstökum árangri utan Íþróttahreyfingarinnar. Frægð þeirra manna eins og Jóns Páls, Magnúsar Vers og Benedikts Magnússonar vakti athygli víða um heim. 

Haustið 2008 hófst nýr kafli þegar Kraftlyftingasamband Íslands sótti um aðild að ÍSÍ. Kraftlyftingafélag Akureyrar (KFA), sem var eitt af fáum aðildarfélögum sambandsins, fylgdi í kjölfarið og sótti aftur um aðild að Íþróttabandalagi Akureyrar (ÍBA). Árið 2010 var Kraftlyftingasamband Íslands formlega tekið inn í ÍSÍ, sem markaði endurkomu kraftlyftingamanna sem fullgildir meðlimir innan íþróttahreyfingarinnar. Sama ár varð KFA aftur að fullgildum meðlimi ÍBA, sem hafði jákvæð áhrif á lyftingasamfélagið á Akureyri. 

Endurreisn ólympískra lyftinga 

Á aðalfundi KFA árið 2011 var ákveðið að innlima ólympískar lyftingar aftur inn í starfsemi félagsins. Sérstök deild var stofnuð til að sinna hagsmunum þeirra, sem lagði grunn að markvissri uppbyggingu ólympískra lyftinga á Norðurlandi. Árið 2013 var starfsemi og saga Lyftingafélags Akureyrar formlega sameinuð við sögu Kraftlyftingafélags Akureyrar (sem áður hét Lyftingaráð Akureyrar), og þannig var grunnurinn lagður að sameinaðri framtíð. 

Stefnumótun og leiðsögn (2008–2011) 

Á árunum 2008–2011 var framtíð Kraftlyftingafélags Akureyrar mikið rædd. Stanslausir fundir fóru fram í stefnumótun og aðlögun að því að verða fullgilt aðildarfélag innan ÍSÍ og ÍBA. Flestir í forsvari félagsins voru ungir og skorti reynslu, á meðan eldri meðlimir voru oft úrvinda eftir erfið ár og erfitt að virkja þá til starfa. 

Leiðbeinendur sem skildu eftir sig spor 

Einstaklingar innan íþróttahreyfingarinnar á Akureyri höfðu mest áhrif á stefnumótun félagsins: 

  • Viðar Sigurjónsson (fræðslustjóri ÍSÍ): Hjálpaði félaginu að vinna að handbók, verða fyrirmyndarfélag hjá ÍSÍ og hvatti þjálfara til að sækja endurmenntun. 

  • Þóra Leifsdóttir (framkvæmdarstjóri ÍBA): Leiddi félagið í að skila skýrslum og byggja upp daglegt starf sem aðildarfélag innan ÍBA. 

  • Gísli Sigurðsson (frjálsíþrótta- og afreksþjálfari): Kom með áhrifaríka nálgun í þjálfun, skipulag æfinga og daglegu íþróttastarfi. 

Aðrir stuðningsaðilar áttu einnig þátt í endurreisninni, þar á meðal Tryggvi J. Heimisson, Magnús Sigþórsson og Aðalheiður Hafsteinsdóttir (íþróttakennarar), Sigurjón Pétursson (þá formaður KRAFT), og margir fyrrverandi stjórnarmenn og meðlimir, svo sem Rúnar Friðriksson, Guðmundur Svanlaugsson, Freyr Aðalsteinsson, Flosi Jónsson, Gunnar Jónsson og Sigfús Fossdal. 

 

Markmið stefnumótunar 

Meginmarkmið stefnumótunarinnar var að byggja upp lyftingasamfélag sem laðaði að börn, unglinga og nýliða, eflt afreksgetu án lyfja og fylgdi reglum og lögum íþróttahreyfingarinnar. Jafnframt var lögð áhersla á að varðveita sögu félagsins og tryggja það trausta framtíð. 

Endurskipulagning og ný tækifæri (2010–2012) 

Vorið 2010 voru fyrstu drög að framtíðarsýn Kraftlyftingafélags Akureyrar (KFA) kynnt og strax farið í að fylgja áætluninni. Á þessum tíma ríkti enn mikil sundrung í lyftingaíþróttinni á Akureyri. Nokkrir hópar kusu að starfa utan ÍSÍ, og aðalæfingaaðstaða lyftingamanna var í Viking Gym í Sunnuhlíð, líkamsræktarstöð sem Sigfús Fossdal hafði rekið um árabil. Sigfús, sem var á þeim tíma einn öflugasti kraftlyftingamaður þjóðarinnar, hafði mikil áhrif á íþróttalífið á Norðurlandi og naut virðingar margra. 

Tímamót og breytingar í Sunnuhlíð 

Sumarið 2012 flutti Sigfús til Ísafjarðar og seldi Viking Gym til aðila sem höfðu ekki bein tengsl við lyftingaíþróttina. Í stöðinni hafði safnast saman dýrmætur búnaður, og gripir frá sögufrægum lyftingamönnum í gegnum árin. Það varð KFA mikilvægt markmið að tryggja áframhaldandi aðgang að þessari aðstöðu og búnaði. 

Starfsemi á fullri ferð 

Á þessum tíma hafði starfsemi KFA náð góðu skriði. Félagið hélt fjölda móta, æfinga og viðburða í samstarfi við íþróttafélög innan ÍBA og aðra aðila utan Íþróttahreyfingarinnar. Stjórn félagsins, sem hafði verið óbreytt um árabil, samanstóð af ungu fólki sem hafði öðlast mikla reynslu sem íþróttamenn, þjálfarar, mótshaldarar og stjórnendur. Þetta lagði grunninn að öflugri framtíð félagsins. 

 

Sýn og leiðtogahlutverk Grétars Skúla Gunnarssonar 

Sýn Kraftlyftingafélags Akureyrar (KFA) var skýr, en margir áttu enn eftir að sannfærast. Grétar Skúli Gunnarsson, sem hafði árið áður skipulagt eitt glæsilegasta lyftingamót Akureyrar, var leiðandi afl í þessari umbreytingu. Hann var á sínu öðru ári sem formaður, með áralanga reynslu sem þjálfari, keppandi og skipuleggjandi. Grétar kom úr hópi ungra drengja sem höfðu metnað til að færa félagið aftur undir ÍSÍ og ÍBA og sameina kraftlyftinga- og lyftingastarfsemi á ný. 

 

Ástríða sem knýr áfram 

Þegar spurt var hvað knúði hann áfram, svaraði Grétar: „Það var bikarmótið 2011. Ég var nýorðinn 23 ára. Þegar ég horfði á stelpurnar keppa með mömmu, benti ég á Huldu og sagði: 'Ég ætla að giftast henni' í sömu andrá og hún lagði niður sigurlyftuna.“ Hann bætti við: „Ég setti mér markmið, bjó til plan sem meikaði sens og framkvæmdi. Þetta lærði ég í íþróttum. Lífið er ekki alltaf dans á rósum, en þessi aðferð virkar alltaf fyrir mig.“ 

 

Hulda og heimsmeistaramarkmiðið 

Hulda, ung kona sem hóf að keppa árið 2010 þegar íþróttin var endurkomin í ÍSÍ, hafði náð ótrúlegum árangri á skömmum tíma. Árið 2011 kom hún fjórum sinnum til Akureyrar til að keppa og breyttist úr byrjanda í sterkustu konu landsins. „Hún vildi verða heimsmeistari,“ sagði Grétar. „Við settum upp skipulag og áætlun fyrir félagið til að framleiða heimsmeistara, og hún gæti orðið ein af þeim fyrstu.“ Hulda flutti norður sumarið 2012 til að giftast Grétari, elta heimsmeistaramarkmiðið og upprisu KFA. 

 

Uppbygging og áskoranir (2012–2013) 

Haustið 2012 hóf Grétar Skúli Gunnarsson og Erlendur Helgi Jóhannesson að halda námskeið í bæði kraftlyftingum og ólympískum lyftingum til að fjármagna uppbyggingu. Jötunheimar, sem höfðu verið heimili félagsins í áratugi, voru löngu orðnir of litlir fyrir starfsemina. Því hófst undirbúningur að því að taka við hluta af aðstöðunni í Sunnuhlíð, þar sem Viking Gym hafði áður verið rekið. 

 

Norðurlandameistaramót og endurnýjun búnaðar 

Árið 2013 hélt KFA Norðurlandameistaramót í lyftingum á Akureyri í samstarfi við Lyftingasamband Íslands (LSÍ). Mótið tókst með glæsibrag og styrkti orðspor félagsins sem leiðandi mótshaldara innan íþróttahreyfingarinnar. Með ágóðanum var endurnýjaður talsverður hluti af æfingabúnaði, sem hafði að mestu verið notaður frá 1980 og aðeins uppfærður lítillega árið 1989. 

 

Áskoranir með húsnæði 

Frá 2011 hafði félagið beðið um annan sal fyrir barna- og unglingastarf í Laugargötu, án árangurs. Með ráðgjöf frá Ellerti Erni Erlingssyni, embættismanni íþróttamála á Akureyri, var ákveðið að leigja húsnæði af þriðja aðila þar til annað húsnæði í eigu bæjarins yrði úthlutað. Ætlunin var að nota Sunnuhlíð fyrir æfingar fyrir íbúa í Glerárþorpi og Íþróttahöllina fyrir mótshald og æfingar iðkenda á Brekkuni. 

 

Tímabundið bakslag 

Vorið 2013 var Jötunheimum, æfingaaðstöðu félagsins í áratugi, úthlutað Handboltafélagi Akureyrar. Án vitundar KFA var búnaður félagsins þar eyðilagður eða hent. Á sama tíma var Sunnuhlíð undirbúnin fyrir starfsemina. Þrátt fyrir áskoranir lagði Grétar Skúli alla sína orku í málið. Hann hætti í vinnu sumarið 2013 og tók alfarið við þjálfun og rekstri félagsins. Freyr Aðalsteinsson, heiðursfélagi KFA, kallaði hann „prímus mótor“ félagsins. 

Nýtt húsnæði og hröð uppbygging (2010–2013) 

Til að bæta fyrir óvissu með húsnæði greiddi Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) hluta af leigunni í Sunnuhlíð. Á sama tíma tók KFA við starfsemi í gamla KEA-lagernum og hæðinni fyrir ofan. Á þessum tímamótum fjölgaði iðkendum hratt, og nýjar reglur tóku gildi með endurkomu félagsins undir ÍSÍ. 

Grétar Skúli Gunnarsson lýsti fórnfýsi sinni: „Ég fjarmagnaði kaup félagsins á þrotabúinu hjá þeim sem keyptu Viking Gym af Fúsa. Þar voru áhöld og tæki sem voru mikilvæg. Ég gat ekki leyft þessum sögulegu gersemum að lenda í partasölu.“ 

Þegar leigusamningurinn losnaði, fékk KFA tækifæri til að taka við honum. Samkomulag var gert við ÍBA, þar sem húsnæðið var leigt fyrir bæði KFA og Draupni (júdófélag), en KFA tók alfarið á sig rekstrarkostnaðinn (þrif, rekstur á sameiginlegri aðstöðu, hita, rafmagn, hússjóð og önnur rekstrargjöld). 

 

Vor íslenskra lyftinga (2010–2020) 

Árin 2010–2020 marka vor íslenskra lyftinga, með sprengingu í áhuga og fjölgun lyftingafélaga frá tveimur í yfir þrjátíu á landsvísu. Þetta sóknarskeið endurspeglar breytt viðhorf til íþrótta og heilsu í íslensku samfélagi. 

Kraftlyftingafélag Akureyrar var í lykilhlutverki þessarar þróunar. Félagið vann markvisst að uppbyggingu þar sem kennsla, þjálfun og keppni voru í öndvegi. Það voru haldinn fleiri mót af KFA á þessum árum heldur en hjá öllum öðrum aðildarfélögum KRAFT og LSÍ til samans. 

Keppnir og afrek 

KFA stóð fyrir yfir 140 mótum, þar á meðal stórviðburðum eins og Norðurlandameistaramótum (2013 og 2018). Fjöldi iðkenda náði hámarki vorið 2016 með 380 iðkendum. Árangur íþróttamanna félagsins var eftirtektarverður: 

  • Viktor Samúelsson (f. 1993) var valinn Íþróttamaður Akureyrar fimm sinnum (2015, 2016, 2018, 2019 og 2020) og hlaut annað sæti tvisvar (2014 og 2017). Hans bestu tölur eru 400kg í hnébeygju, 325kg í bekkpressu og 338kg í réttstöðulyftu í -120kg fl.  

  • Hulda B. Waage (f. 1985) var valin Kraftlyftingakona ársins 2018 og Íþróttakona Akureyrar sama ár. Hennar bestu tölur eru 260.5kg í hnébeygju, 185kg í bekkpressu og 190kg í réttstöðulyftu 

  • Sóley Margrét Jónsdóttir (f. 2001) var valin Kraftlyftingakona ársins 2019 og náði öðru sæti í kjöri Íþróttakonu Akureyrar. 

  • Björk Óðinsdóttir (f. 1988) keppti fyrst kvenna frá Akureyri á heimsmeistaramóti í lyftingum 2017. Hennar bestu tölur eru 85kg í snörun og 109kg í jafnhendingu í -63kg fl. 

  • Þorbergur Guðmundsson (f. 1993) varð evrópumeistari ungmenna 2014 í +120kg fl. Hans bestu tölur eru 420kg í hnébeygju, 300kg í bekkpressu og 355kg í réttstöðulyftu. 

Á þessum árum var breiður hópur annara afreksmanna sem áttu eftir að ná stórkostlegum árangri á mótum alþjóðlega og innanlands. Lið KFA voru stigahæsta keppnislið Kraftlyftingasambands Íslands 2014, 2015, 2016, 2017, 2018, og 2019. Íslandsmeistaratitlar í hundruði talsins, íslandsmet rúmlega 900, 27 norðurlandamet, 3 evrópumet og 2 heimsmet. 

 

Sögulegur árangur 

Frá sagnfræðilegu sjónarhorni markar þetta tímabil mikla vakningu í íþróttasögu Akureyrar. Meðal annars náði félagið ekki aðeins að mæla árangur í fjölda iðkenda, heldur einnig í því að gera lyftingar að viðurkenndum hluta af lífsstíl og menningu bæjarbúa.  

 

Húsnæðisvandamál og nýtt upphaf á Hjalteyri 

Þrátt fyrir mikinn árangur glímdi Kraftlyftingafélag Akureyrar (KFA) við viðvarandi húsnæðisvanda á árunum 2013–2020 og þurfti að flytja starfsemi sína fimm sinnum. Að lokum flutti félagið í gömlu síldarverksmiðjuna á Hjalteyri, þar sem sjálfboðaliðar og velvildarmenn unnu hörðum höndum að umfangsmiklum endurbótum. 

Lyftingahöllin á Hjalteyri býður upp á framúrskarandi aðstöðu með lyftinga- og kraftlyftingasali, klifurvegg, upphitunaraðstöðu, geymslum, kaffistofu og aðgengi að sjópottum. Þessi aðstaða hefur veitt félaginu nýjan kraft og undirbúið það fyrir nýja sókn. 

Nýjar deildir og þróun 

Klifur var stofnað innan Kraftlyftingafélags Akureyrar (KFA) með það að markmiði að þjálfa og þjónusta yngri iðkendur í lyftingum. Tengingin við lyftingar var eðlileg, þar sem klifur og lyftingar deila sambærilegri þjálffræði og hugarfari sem byggir á styrk, úthaldi og einbeitingu.  

Árið 2014 var klifur stofnað sem grein innan hreystideildar KFA og varð sérgrein 2015. Þegar sérsamband fyrir íþróttaklifur var stofnað innan ÍSÍ árið 2022, var KFA meðal stofnaðila. Í dag er klifur talin ein af kjarngreinum lyftingadeildar félagsins. Það gegnir lykilhlutverki í að endurnýja og nútímavæða félagið, þar sem það opnar dyr fyrir fjölbreyttari hóp iðkenda og stuðlar að fjölþættri lyftingaþjálfunar innan félagsins. 

Frjálsíþróttadeildin: Samvinna og sameiginleg markmið 

Frjálsíþróttadeild Kraftlyftingafélags Akureyrar (KFA) var stofnuð árið 2017 með áherslu á tæknigreinar, þrautir og kastgreinar. Árið 2018 varð deildin formlegur aðili að Frjálsíþróttasambandi Íslands (FRÍ). 

Sýn félagsins hefur verið að tengja frjálsíþróttadeildina við kjarndeildir félagsins þess. Sérstaklega eru kastgreinar og lyftingaþjálfun nántengd, þar sem þær deila sameiginlegum þjálffræðilegum grunni og stuðla hvor að framgangi hinnar. Þetta samstarf hefur skapað sterkt samband milli greina sem nærast af hvor annarri og styrkja íþróttasamfélag félagsins í heild. 

 

Öflugt samfélag og björt framtíð 

Í gegnum tíðina hefur KFA sýnt einstaka seiglu, frumkvæði og samhug. Félagið stendur nú sem sterkt samfélag lyftingamanna, með augun á bjartari framtíð. Eldmóður félagsins og sjálfboðaliðastarf þess eru skýr sönnun á því hvernig félagsleg tengsl geta skapað langvarandi árangur í íþróttum.   

Frá upphafi hefur Kraftlyftingafélag Akureyrar (KFA) verið leiðandi afl í uppbyggingu og þróun lyftingaíþrótta á Íslandi. Fyrstu skref félagsins, þegar Vilhjálmur Ingi Árnason og Grétar Kjartansson hófu æfingar í ófullkominni aðstöðu með heimagerðum áhöldum, endurspegla vilja og getu til að skapa eitthvað úr litlu. Þeir lögðu grunninn að samfélagi sem hefur síðan staðið sterkt á traustum grunni ástríðu, sjálfboðaliðastarfs og metnaðar. 

Þessi söguarfur hefur mótað framtíðarsýn félagsins: að skapa fullþróaða íþróttaaðstöðu fyrir lyftingar, sem samsvarar frjálsíþróttavelli. Rétt eins og í upphafi félagsins, þegar ýmsir hópar sameinuðust í stúku Íþróttavallarins, er markmiðið að samþætta ólíkar íþróttagreinar eins og lyftingar, klifur og kastgreinar. Þessar greinar deila sameiginlegum grunni í þjálffræði og hugarfari, sem gerir þeim kleift að nærast hvor af annarri og skapa sterkt, fjölbreytt samfélag iðkenda.  

Our Teams: TeamMember
Stationary photo
  • facebook
  • instagram

Verksmiðjan Hjalteyri Akureyri Iceland 604

©2017 by Kraftlyftingafélag Akureyrar. Proudly created with Wix.com

bottom of page